Bush vill ræða ný markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda

George W Bush Bandaríkjaforseti hefur hvatt þjóðir heims til að fallast á ný langtímamarkmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir lok næsta árs. Segist forsetinn ætla að ræða málið við leiðtoga þeirra fjórtán ríkja, sem losa mest af gróðurhúsaloftegundum út í andrúmsloftið. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Bush sagði þetta er hann kynnti áherslumál sín fyrir leiðtogafund G8 ríkjanna sem haldinn verður í Þýskalandi í næstu viku en Þjóðverjar hyggjast hvetja til þess á fundinum að takmarkanir verði settar á losun gróðurhúsalofttegunda.

Sagði forsetinn lausn málsins m.a. felast í afnámi tolla af tækjum sem nýti umhverfisvæna orku. Þá hefur hann haldið því fram að nýjar tækniuppgötvanir muni leysa stóran hluta vandans innan skamms. „Bandaríkin eru hér í forystu," sagði hann í dag. „Heimurinn er á mörkum nýrrar uppgötvunar sem mun gera manninum kleift að stýra umhverfi sínu á farsælli hátt."

Þá sagði Bush hugmyndir sínar í grundvallaratriðum vera þær að hver þjóð setji sér sín eigin langtímamarkmið í samræmi við orkunýtingu og fyrirsjáanlega orkuþörf sína.

Bandaríkin hafa setið undir ásökunum um það á undanförnum árum að standa í vegi fyrir því að hamlað sé gegn losun gróðurhúsalofttegunda en þau fullgiltu ekki Kyoto-sáttmálann, þar sem sett voru markmið varðandi takmörkun slíkrar losunar fram til ársins 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert