Dönsku reykingalögin losaraleg

Dönsk veitingahús gætu breyst í reykingabúllur.
Dönsk veitingahús gætu breyst í reykingabúllur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hin nýja reykingalöggjöf í Danmörku er svo rúm að veitingahúsa- og kráareigendur geta haft reykherbergin eins stór og þeim sýnist. Samkvæmt lögunum sem nýverið tóku gildi eiga veitingahús sem eru yfir 40 fermetrum að banna reykingar en yfirlæknir hjá danska Krabbameinsfélaginu segir lögin slöpp og gloppótt sem gatasigti.

Á fréttavef Berlingske Tidende segir yfirlæknirinn að veitingahúsin geti einfaldlega innréttað eins stór reykherbergi og þeim sýnist. Starfsfólk má ekki þjóna til borðs í reykhlutanum en gestir þyrftu sjálfir að sækja sér veitingarnar og fara með inn í reykinn.

Berlingske Tidende segir að samkvæmt þessu væri hægt að útbúa 150 fermetra reykherbergi í 200 fermetra veitingahúsi og láta 50 fermetra vera reyklausa með þjónustu.

„Þingið hefur gert reykingar að hlut sem veitingahús munu keppast um að bjóða upp á og það var tæplega meiningin eða hvað?,” sagði Gry Asnæs talsmaður veitingamanna í Horesta.

Lars Løkke, heilbrigðisráðherra viðurkenndi að lögin gæfu möguleika á útúrsnúningi en sagði jafnframt að hinn möguleikinn hefði verið að smíða löggjöf sem væri hlaðin smáatriðum. Hann benti á að lögin komi til endurskoðunar eftir þrjú ár og þá yrði athugað hvort herða þyrfti lögin ef veitingamenn gerist einum of kræfir og færi sér í nyt hversu sveigjanleg löggjöfin er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert