Á þriðja tug þjóða neitaði að taka þátt í atkvæðagreiðslu á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Anchorage í nótt og mun það vera í fyrsta skipti í sögu hvalveiðiráðsins sem það gerist. Verið var að greiða atkvæði um ályktun þar sem vísindahvalveiðar Japana eru fordæmdar. Tillagan var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 2 en 26 ríki, þar á meðal Japan og Ísland, neituðu að taka þátt í atkvæðagreiðslunni á þeirri forsendu að tillagan bryti gegn reglum ráðsins.
Tillagan var lögð fram af Nýsjálendingingum og studd af Bandaríkjamönnum, Bretum, Áströlum, Frökkum og Suður-Afríkumönnum. Rússar og Norðmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni en Kína sat hjá.
„Það kom greinilega fram að tvær fylkingar sem hafa mismunandi afstöðu eru í Alþjóðahvalveiðiráðinu," sagði Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. „Það væri nógu slæmt ef Japanar væru að skutla hvali við eigin strendur en þeir koma og skutla okkar hvali," sagði hann.
Japanar sögðu að ályktunin hefði verið „hatursályktun". „Það sveit andi málamiðlana yfir vötnunum á þessum fundi en andstæðingar hvalveiða gátu ekki á sér setið að samþykkja hatursályktanir," sagði Glenn Inwood, talsmaður japönsku sendinefndarinnar.
Japanar lögðu í gærkvöldi fram formlega tillögu um að Alþjóðahvalveiðiráðið aflétti hvalveiðibanni, sem verið hefur í gildi í rúma tvo áratugi. Búist er við að sú tillaga verði felld í dag. Ársþingið samþykkti hins vegar samhljóða tillögu Japana um að fordæma aðgerði Sea Shepeherd gegn japönskum hvalveiðiskipum í Suðurhöfum í vetur.
Þá var enn frestað að afgreiða tillögu um svonefndan frumbyggjaveiðikvóta til Grænlendinga, sem vildu bæta tveimur hnúfubökum og 10 sléttbökum við þann kvóta, sem þeir hafa haft. Í gærkvöldi féllu Danir, sem fara með málefni Grænlands á fundinum, frá tillögu um hnúfubakakvóta og lögðu til að beðið yrði með veiðar á sléttbak þar til vísindanefnd hvalveiðiráðsins hefði fjallað um málið. Það myndi þýða, að veiðarnar hæfust ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2009.
Engin tillaga var lögð fram á þinginu um hvalveiðar Íslendinga.