Pútín: Nauðsynlegt að viðhalda hernaðarlegu jafnvægi

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sagði í dag að eldflaugatilraunir sem Rússar gerðu nýverið séu svar þeirra til að viðhalda hernaðarlegu jafnvægi í heiminum í því sem hann kallar „nýja lotu í vígbúnaðarkapphlaupinu”. Segir Pútín að Rússar hafi ekki hafið hina nýju lotu, og að þeir hafi ekkert illt í huga, þeir muni hins vegar halda áfram að auka varnarmátt sinn.

„Við höfum varað hina bandarísku vini okkar við því hvernig við munu svara til að viðhalda hernaðarlegu jafnvægi í heiminum”, segir Pútín. „Þeir eru að hlaða niður vopnum í Austur-Evrópu, ný herstöð í Búlgaríu, önnur í Rúmeníu, eldflaugavarnir í Póllandi, ratsjárstöð í Tékklandi. Hvað eigum við að gera? Við getum ekki bara fylgst með aðgerðalaust”.

Bandaríkjamenn vilja koma fyrir eldflaugavörnum í Póllandi og Tékklandi til að svara ógn sem þeir telja að stafi af ríkjum á borð við N-Kóreu og Íran. Segja Bandaríkjamenn að vörnunum sé ekki beint gegn Rússum, en Rússar telja öryggi sínu ógnað með hinum nýja vígbúnaði.

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert