Tuttugu og átta manns hafa drukknað í Moskvu á undanförnum dögum í tilraunum sínum til að kæla sig í hitabylgjunni sem nú gengur yfir Rússland. Margir hinna látnu voru drukknir er þeir létust í tjörnum, síkjum og gosbrunnum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
“Meginástæða dauðsfallanna er sú að fólk er að baða sig þar sem ekki er gert ráð fyrir að fólk baði sig,” segir Vladimir Plyasunov, yfirmaður lífvarðasveita borgarinnar. “Að auki voru 75% þeirra ekki allsgáðir.” Þá segir hann alla lífverði borgarinnar hafa verið kallaða út vegna hitabylgjunnar.
Hiti í borginni er nú yfir 30 gráðum og hefur hann aldrei áður mælst svo hár í maímánuði.