Læknasamtök í Hollandi fóru þess á leit við meðlimi sína í dag að þeir taki ekki þátt í raunveruleikaþætti í sjónvarpi er fjallar um dauðvona konur er ákveður hver fær annað nýrað úr henni. Sjónvarpsstöðin BNN hefur útsendingar á þættinum í kvöld, og segir markmiðið að vekja athygli á skorti á líffæragjöfum.
Þátturinn - „The Big Donor Show“ - hefur verið fordæmdur víða í Evrópu og sagður smekklaus og siðlaus. Framleiðandinn er sá sami og bjó til „Big Brother“ árið 1999, og hratt þar með af stað raunveruleikaþáttabylgjunni sem lítið lát virðist ætla að verða á.
Konunglegu læknasamtökin í Hollandi (KNMG) segjast kunna að meta að BNN vilji vekja athygli á líffæragjafaskorti, en telja að þessi aðferð til þess sé smekklaus og ekki vænleg til árangurs. Hvetja samtökin lækna til að koma hvergi nálægt þættinum, og geta sér þess til að hann sé fyrst og fremst auglýsingabrella.
Í ljósi þess hve margir læknisfræðilegir, sálrænir og lagalegir óvissuþættir séu í þessu máli telji KNMG afskaplega ólíklegt að af nýraígræðslunni muni nokkurntíma verða.