Umboðsmaður neytenda í Danmörku hefur kært Sterling flugfélagið til dönsku lögreglunnar fyrir að brjóta gegn ákvæðum markaðssetningarlaga landsins um verðlagningu vegna verðauglýsinga þeirra á netinu. Þetta kemur fram á fréttavef danska útvarpsins í dag.
Þar til nýlega hefur Sterling ekki gefið upp rétt verð á lággjaldaverðskrá á heimasíðu fyrirtækisins. Þá var flugvallarskattur ekki tekinn fram í verðinu og þurfti að smella áfram á næstu skjámynd til þess að sjá fullt verð. Fyrirtækið breytti framsetningunni á heimasíðunni eftir gagnrýni umboðsmannsins, en var samt kært til lögreglu.