Áður óþekktur indíánaþjóðflokkur kemur fram í Amazon

Áður óþekktur indíánaþjóðflokkur sem líklega hefur fram til þessa aldrei kynnst vestrænni siðmenningu hefur komið í ljós í regnskógum Amazon í Brasilíu, að því er yfirvöld þar í landi greina frá.

Í þjóðflokknum munu vera 87 manns, og býr hann á afskekktu svæði um tvö þúsund km fyrir norðan Rio de Janeiro.

Þar sem engar stórar ár eru á svæðinu má telja víst að ekki hafi verið hægt að fara inn á svæði þjóðflokksins, sem er djúpt inni í regnskóginum.

Flokkurinn fannst þegar tveir meðlimir hans skutu skyndilega upp kollinum á verndarsvæði annars indíánaættbálks. Ekki er vitað hvers vegna þessi áður óþekkti ættbálkur kaus að hafa samband við aðra nú. Talsmaður stjórnvalda segir það eiga eftir að koma í ljós.

Til að koma í veg fyrir að meðlimir ættbálksins smitist af utanaðkomandi sjúkdómum hafa yfirvöld bannað öll samskipti við þá, nema hvað hópur lækna var sendur inn á svæði þeirra.

Um 700.000 indíánar búa í regnskógum Amazon, þar af um 400.000 á verndarsvæðum þar sem þeir reyna að halda í hefðbundna menningu sína, tungumál og lífshætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert