Framleiðendur hollensks „raunveruleikaþáttar“ um nýrnagjafa, sem reyndist vera gabb, virðast hafa náð því markmiði sínu að vekja athygli á alvarlegum skorti á líffæragjöfum. Í gær báðu 12.000 manns í Hollandi um umsóknareyðublöð fyrir líffæragjafir, og öll hollensk dagblöð segja frá gabbinu á forsíðum sínum í dag.
„Allur heimurinn lét gabbast,“ segir stærsta dagblað landsins, De Telegraaf. „Um tíma leit út fyrir að Hollendingar væru komnir á spjöld sjónvarpssögunnar með ákaflega ógeðfelldum hætti, en það reyndist vera gabb.“
Um 1,2 milljónir áhorfenda fylgdust með þættinum sem sendur var út í gærkvöldi, og að auki var fjöldi fréttamanna hvaðanæva úr heiminum í upptökuverinu. Fyrstu 45 mínúturnar virtist þátturinn ganga fyrir sig eins og auglýst hafði verið mjög vandlega og heimsbyggðin fengið að frétta af. „Lísa“ var kynnt til sögunnar, dauðvona kona með heilaæxli er ætlaði að gefa annað nýrað úr sér einhverjum af þrem „keppendum“ sem þurfa nauðsynlega á líffæragjöf að halda.
Rétt undir lok þáttarins, þegar „Lísa“ átti að tilkynna hver hefði „unnið nýra“, greindi kynnir þáttarins frá því hvernig allt var í pottinn búið.
Sjónvarpsstöðin sem sýndi þáttinn, BNN, höfðar einkum til yngri áhorfenda. Fyrir fimm árum lést Bart de Graaff, sem stofnaði stöðina, eftir að hafa beðið árangurslaust í mörg ár eftir nýrnaígræðslu.
Viðbrögð við gabbinu hafa flest verið jákvæð. Menntamálaráðherra Hollands, Ronald Plasterk, sem í síðustu viku fordæmdi þáttinn og sagði hann smekklausan og siðlausan, hrósaði framleiðendunum í gærkvöldi fyrir „frábæra uppákomu“ og „snjalla aðferð“ við að vekja athygli á alvarlegu vandamáli, þar sem væri skortur á líffæragjöfum.
Læknasamtök Hollands létu að vísu í ljósi efasemdir. „Nú telur stór hluti þjóðarinnar að maður þurfi að vera dauðvona til að geta gefið líffæri, en sannleikurinn er sá að 40% líffæragjafa koma frá stálhraustu fólki.“