Grísk yfirvöld segja berklasjúkling ekki hafa kvænst þar

Brúðkaupsmnd af Andrew Speaker og Sarah Cooksey á grísku eyjunni …
Brúðkaupsmnd af Andrew Speaker og Sarah Cooksey á grísku eyjunni Santorini. Reuters

Bandaríkjamaðurinn Andrew Speaker, sem ferðaðist til Evrópu og aftur til Bandaríkjanna í óþökk bandarískra heilbrigðisyfirvalda, ítrekaði í dag staðhæfingar sínar um að ástæða ferðar hans hafi verið sú að hann hafi ætlað að gifta sig á Grikklandi. Það hafi hann gert hvað sem líður staðhæfingum grískra yfirvalda um að hann hafi ekki gengið í hjónaband þar í landi. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

"Ég veit að ég fór þangað og að það var athöfn og að yfirvöld á staðnum létu mig undirrita alls kyns pappíra. Ég veit að við skiptumst á hringjum,” segir Speaker í viðtali við bandaríska tímaritið Newsweek.

Áður hafði Angelos Roussos, bæjarstjóri á grísku eyjunni Santorini, þar sem Speaker segist hafa gengið í hjónaband lýst því yfir að það væri ekki rétt þar sem Speaker og unnusta hans Sarah Cooksey hafi ekki haft alla nauðsynlega pappíra til að borgaraleg hjónavígsla gæti farið þar fram. “Hann hafði ekki verið í sambandi við borgarstjóraskrifstofuna áður en hann kom og því gat ekkert orðið af hjónavígslunni,” segir Roussos. "Þannig að það var ekkert brúðkaup. Hann dvaldi þess í stað á hóteli í tvo daga, það var Majestic hótelið, og síðan hélt hann til baka til Bandaríkjanna. Þetta var í fyrsta skipti sem hann kom hingað.”

Fjölskylda Speakers hefur birt brúðkaupsmynd af parinu frásögn hans til staðfestingar en vinur hans segir rétt að það hafi komið upp einhvers konar vandamál varðandi pappíra, sem grísk yfirvöld kröfðust, en að parið hafi haldið brúðkaupsveislu sína þrátt fyrir það og ætlað sér að greiða úr hinum formlega vanda þegar heim væri komið.

Fyrirhugað brúðkaup parsins var auglýst í staðarblaði Fulton County í Georgíufylki í apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert