Tveir Palestínumenn féllu í skotárás ísraelskra hermanna við landamæragirðingu á landamærum Ísraels og Gasasvæðisins í dag. Segir talsmaður Ísraelshers að skotið hafi verið á mennina þar sem þeir hafi nálgast girðinguna og ekki hlýtt fyrirmælum hermannanna um að stöðva. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Þá féll liðsmaður palestínsku Jihad-samtakanna er Ísraelsher gerði loftárás á bifhjól hans í bænum Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins í dag.
16 óbreyttir borgarar og 38 herskáir Palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraela á Gasasvæðið á undanförnum tveimur vikum. Þá lést ísraelsk kona í flugskeytaárás herskárra Palestínumanna yfir landamærin til Ísraels. 5.739 manns hafa nú látið lífið í átökum Ísraela og Palestínumanna frá því seinni uppreisn Palestínumanna braust út í september árið 2000, flestir þeirra Palestínumenn.