Óeirðir í Rostock vegna væntanlegs G-8 fundar

Mótmælandi með grjót í hendinni í Rostock í dag.
Mótmælandi með grjót í hendinni í Rostock í dag. Reuters

Nokkur hundruð manns tóku þátt í mótmælum í Rostock í Þýskalandi í dag gegn fundi iðnríkjanna, G-8, sem þar fer fram í næstu viku, og kom til átaka mótmælendanna og lögreglu. Var mólotovkokteilum, flöskum og flugeldum kastað að lögreglunni, sem náði þó tökum á ástandinu. Að sögn fréttamanns AFP á staðnum voru mótmælendurnir úr röðum vinstri öfgasinna.

Talsmaður lögreglunnar sagði mótmælendurna hafa vísvitandi reynt að efna til átaka. Sjónarvottar segja einhverja mótmælendur hafa særst í átökum við lögregluna. Nokkrir mótmælendur höfðu brotið glugga í lögreglubíl.

Lögreglan segir að um 25.000 manns hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðunum, en skipuleggjendur þeirra höfðu vænst um 100 þúsunda, en það voru samtök andstæðinga hnattvæðingar og fátæktar sem skipulögðu aðgerðirnar.

Fundur leiðtoga Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japan, Kanada, Rússlands og Þýskalands setjast að fundarborðinu í Rostock á miðvikudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert