Hryðjuverk á JFK-flugvelli hefði haft "ólýsanlegar afleiðingar"

Alríkisyfirvöld í Bandaríkjunum segja að áform meints hryðjuverkahóps múslíma um að sprengja í loft upp eldsneytistanka og þotueldsneytisleiðslukerfi JFK-flugvallar í New York hefðu getað leitt til ólýsanlegrar eyðileggingar. Sérfræðingar draga þó í efa að manntjón hefði orðið mikið, en bandarískt efnahagslíf hefði lamast og flugsamgöngur lagst af.

Saksóknari sagði á blaðamannafundi í gær, er greint var frá því að komist hefði upp um áformin og þrír af mönnum fjórum verið handteknir, að um hefði verið að ræða einhver miskunnarlausustu áform sem hægt væri að hugsa sér.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að rótin að áformum mannanna fjögurra, sem sagðir eru tilheyra öfgasamtökum múslíma, hafi verið hatur þeirra á Bandaríkjunum og Ísrael. Haft hefur verið eftir einum mannanna að hann hafi langað til að gera eitthvað til að ná sér niðri á "þessum skítseyðum."

Í ákærunni er haft eftir einum mannanna að þeir hafi áformað að valda meiri eyðileggingu en hryðjuverkin 11. september ollu. Þeir hafi ætlað að eyðileggja JFK-flugvöllinn og rústa hluta af Queens-hverfinu, en eldsneytisleiðsla liggur undir því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka