Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, varaði Tyrki við því í dag að senda herlið yfir landamærin inn í norðurhluta Íraks, en Tyrkir hafa hótað að ráðast gegn herskáum Kúrdum sem þeir segja hafa athvarf þar. “Við vonum að ekki komi til einhliða hernaðaraðgerða yfir landamæri Íraks,” sagði hann. “Tyrkir hafa miklar áhyggjur af hryðjuverkastarfsemi Kúrda í Tyrklandi. Við skiljum áhyggjur þeirra og óróleika vegna málsins. Nokkur hundruð Tyrkir láta lífið árlega og við höfum unnið að því með Tyrkjum að ná stjórn á vandanum.”
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, hvatti Tyrki til þess í gær að gera ekki nýja innrás yfir landamærin til Íraks og sagði að Írakar muni ekki sætta sig við að friðnum verði spillt á einu friðsælasta svæði landsins.