Bandaríski þingmaðurinn William Jefferson var í dag ákærður fyrir ýmis afbrot, þar á meðal mútur og peningaþvætti, í tengslum við rannsókn á viðskiptasamningum, sem hann reyndi að koma í kring í Afríku.
Ákæran var þingfest í alríkisdómstóli í Alexandria í Virginíu í dag. Að sögn fréttavefjar Washington Post er ákæran 94 blaðsíðna löng og er í 16 liðum. Jefferson, sem er þingmaður demókrata í fulltrúadeild þingsins, er ákærður fyrir fjársvik, peningaþvætti, samsæri, fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fleira. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 235 ára fangelsisdóm.
Jefferson er sakaður um að hafa þegið mútur og um að hafa mútað embættismanni í Nígeríu. Fyrir tæpum tveimur árum gerði lögregla húsleit á heimili hans í Louisiana og fann 90 þúsund dali í seðlum í kassa í frystikistu.
Jefferson, sem er 63 ára, hefur haldið fram sakleysi sínu en að öðru leyti hefur hann lítið tjáð sig um málið. Hann var endurkjörinn þingmaður Louisiana á síðasta ári þrátt fyrir að rannsóknin á málum hans stæði þá sem hæst.