Talsmaður Atlantshafbandalagsins NATO segja hótanir Vladímírs Pútíns, Rússlandsforseta um að Rússar muni beina eldflaugum sínum að Evrópu komi Bandaríkin upp eldflaugavarnakerfi þar hvorki hjálplegar né til þess fallnar að stuðla að trausti á milli Rússa og annarra Evrópuþjóða. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Að mínu viti eru Rússar eina þjóðin sem lætur sér detta í hug að beina eldflaugum að Evrópu,” segir James Appathurai, talsmaður NATO. „Svona yfirlýsingar eru hvorki velkomnar né hjálplegar.
Bandarískir ráðamenn segjast vilja koma upp eldflaugavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi til að verja Bandaríkin hugsanlegum árásum Írana og Norður-Kóreumanna en Pútín dró þetta í efa í ræðu sem hann flutti í gær og sagði Bandaríkjunum ekki stafa nokkur hætta af Írönum.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, mun hitta Pútín á leiðtogafundi G-8 ríkjanna síðar í þessari viku og segist hann ætla að ræða málið við hann af hreinskilni. „Ég mun hlusta á það sem hann hefur að segja. Hann hefur hvatt til hreinskilinna viðræðna og að minni hálfu munu þær vera mjög hreinskilnar,” segir hann.