Pútín segir framsalskröfu Breta heimskulega

Alexander Litvinenko
Alexander Litvinenko AP

Krafa Breta um að maður sem grunaður er um að hafa myrt njósnarann fyrrverandi Alexander Lítvínenko er heimskuleg að sögn forseta Rússlands Vladimírs Pútíns. Þetta kom fram á fundi Pútíns með fjölmiðlafólki í dag. Talið er að þessi hörðu viðbrögð Pútíns auki enn á erfiðleika í samskiptum rússneskra og breskra stjórnvalda. Bresk stjórnvöld segjast hafa nægar sannanir fyrir því að rússneski kaupsýslumaðurinn Andrej Lúgovoj hafi eitrað fyrir Lítvíneko en Lúgovoj segist hafa sannanir fyrir aðild bresku leyniþjónustunnar MI6 að morðinu.

Lúgovoj hitti Lítvínenko á bar hótels í London 1. nóvember, nokkrum klukkustundum áður en njósnarinn fyrrverandi veiktist. Bresk yfirvöld óskuðu nýverið formlega eftir því að Rússar framseldu Lúgovoj til að hægt yrði að saksækja hann í Bretlandi fyrir að byrla Lítvínenko eitur. Yfirvöld í Rússlandi hafa neitað að verða við beiðninni, enda bannar stjórnarskrá landsins framsal rússneskra borgara til annarra landa. Yfirvöld í Moskvu segja að Lúgovoj eigi yfir höfði sér saksókn í Rússlandi leggi bresk stjórnvöld fram nægar sannanir fyrir því að hann hafi myrt Lítvínenko.

Segir Pútín að Bretar eigi að þekkja rússnesku stjórnarskrána þannig að framsalskrafan sé í raun fáránleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert