Mikill skortur er á ungum konum í Færeyjum samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu eyjanna. Þannig eru 13% færri konur en karlar á aldrinum 20-24 ára og 11% færri á aldrinum 20-39 ára.
Á færeyska vefnum kveik.fo segir, að um 900 færri konur en karlar séu á þessum aldri og nærri 2000 færri konur á aldrinum 20-64 ára.
Það er ekki fyrr en komið er á áttræðisaldurinn sem þessi mynd breytist.
Þann 1. janúar voru Færeyingar 48.350 talsins, þar af 25.135 karlar og 23.215 konur.