Taylor segist ekki reikna með sanngjörnum réttarhöldum

Dómarar í máli Taylors í Haag sitja í efri röð …
Dómarar í máli Taylors í Haag sitja í efri röð í salnum. AP

Charles Taylor, fyrrum forseti Líberíu, mætti ekki í réttarsalinn í Haag þegar réttarhöld hófust þar yfir honum fyrir stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna. Karim Khan, verjandi Taylors, las upp bréf frá Taylor þar sem hann segir, að sér hafi verið meinað að velja sér sjálfur lögmann og að skipaður verjandi hans sé ekki jafnoki saksóknaranna. Segist Taylor ekki ætla að eiga frekari samvinnu við dómstólinn.

„Ég hafði eitt sinn trú á að þessi dómstóll gæti útdeilt réttlæti. Með tímanum hefur orðið ljóst að þessi trú var byggð á röngum forsendum," segir í bréfinu. „Ég mun ekki fá sanngjörn réttarhöld."

Stephen Rapp, saksóknari, vísaði þeim ummælum Taylors á bug, að hann fengi ekki viðunandi vörn og benti á að Taylor hefði fengið lögmann, rannsóknarlið og fjármagn til að skipuleggja vörn sína.

Rapp sagði, að réttarhöldin gætu haldið áfram þótt Taylor væri ekki í réttarsalnum en hann yrði þó að mæta fyrir dóminn til að lýsa viðhorfi sínu til sakarefnanna. Khan féllst á að réttarhöldin gætu haldið áfram og sagði að Taylor hefði lýst sig saklausan af öllum ákæruatriðum.

Julia Sebutinde, dómari, sem er frá Úganda, greip ítrekað fram í fyrir Khan þegar hann las upp bréf Taylors og krafðist skýringa á því hvers vegna Taylor væri fjarverandi. „Við höfum ekki áhuga á pólitískum ræðum," sagði hún við verjandann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert