Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur hvatti Dani til þess í dag að lát múslíma um að ræða höfuðslæður múslímakvenna. Sagði hann klæðnað vera persónulegt mál hvers og eins, hvort sem viðkomandi sinni opinberu embætti eða ekki en töluvert hefur verið rætt um höfuðslæður múslíkakvenna á danska þinginu að undanförnu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Pia Kjærsgaard, formaður Danska þjóðarflokksins, hefur þegar andmælt ummælum forsætisráðherrans harðlega. “Nei innflytjendur þurfa að laga sig að dönskum reglum í mun meira mæli. Einungis þá verður hægt að tala um jafnréttháa borgara,” segir hún. “Einungis með þeim hætti geta þeir áunnið sér þá virðingu sem þeim verður svo tíðrætt um. Íslam er klók og útsmogin hugmyndafræði. Íklædd saklausri hempu trúarinnar reynir hún að gegnsýra allt og grunlausir Danir þora ekki annað en að láta það viðgangast annað hvort á grundvelli umburðarlyndis eða af ótta við átök. Aðlögun þýðir það að konur þurfa ekki að bera höfuðslæður enda eru höfuðslæður tákn undirokunar.”
Þá segir hún margar múslímakonur vissulega bera höfuðslæður sjálfviljugar en að í Danmörku geri þær það yfirleitt til þess eins að lýsa fyrirlitningu sinni á Dönum.