Yfirsamningamaður Írans í kjarnorkumálum, Ali Larijani sagði í dag að Evrópa yrði aldrei skotmark íranskra eldflauga. Ummælin komu í kjölfar staðhæfingar Bandaríkjastjórnar, þar sem kom fram að Íranskar eldflaugar ógni öryggi Evrópu.
„Evrópa er ekki og mun aldrei verða skotmark íranskra eldflauga. Við höfum sterk viðskiptasambönd og tengsl við Evrópu,” sagði Larijani í samtali við ISNA fréttastofuna.
Hann sagði að fólk sem léti slík ummæli frá sér fara vera að leika leiki sem einungis fáráðlingar leika.
Bandaríkin hafa í hyggju að koma sér upp eldflaugavarnarkerfi í Tékklandi og Póllandi þrátt fyrir hörð mótmæli í Rússlandi.
Washington heldur því fram að kerfið sé hannað til að verjast eldflaugaárásum frá óstöðugum ríkjum á borð við Íran.
Rússar telja að uppsetning bandarísku eldflauganna sé árásargjörn aðgerð nærri landamærum landsins sem gæti haft þær afleiðingar að vopnakapphlaup blossar upp á nýjan leik.
Larijani sagði á sunnudaginn að íranskar eldflaugar væru ófærar um að ná Evrópu og að staðhæfingar Bandaríkjamanna væru „brandari ársins.”