Serbnesk stjórnvöld eru að hefja rannsókn á fullyrðingum um að fjöldagröf með líkum rúmlega 350 Kosovo-Albana sé að finna í Raska við landamæri Kosovo og Serbíu.
Carla Del Ponte, yfirsaksóknari við Stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, sem er stödd í Belgrad, höfuðborg Serbíu, hvetur á sama tíma serbnesk stjórnvöld til þess að hafa hendur í hári fimm stríðsglæpamanna sem enn er leitað. Meðal þeirra er Ratko Mladic, fyrrum hershöfðingja Bosníu-Serba sem er eftirlýstur af dómstólnum fyrir stríðsglæpi.
Að sögn Bruno Vekaric, talsmanns serbneska stríðsglæpadómstólsins, segir að vitni hafi greint frá því að hafa séð fjölda líka komið fyrir í fjöldagröf í yfirgefinni grjótnámu í Raska árið 1999. Segir hann að vísbendingar séu um að rúmlega 350 lík sé að finna í gröfinni.
Ef satt reynist þá er þetta þriðja fjöldagröfin sem finnst með líkum Kosovo-Albana frá tímum stríðsins í Kosovo á árunum 1998-1999. Frá árinu 2000 hafa um 800 lík fundist í tveimur fjöldagröfum í Serbíu.