Bush gerir lítið úr deilunni við Rússa

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sést hér með Vladimír Pútín Rússlandsforseta …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sést hér með Vladimír Pútín Rússlandsforseta og George W. Bush Bandaríkjaforseta fyrir utan fundarstaðinn í Heiligendamm. AP

George W. Bush hefur aftur reynt að gera lítið úr deilunni við Rússa nú við upphaf leiðtogafundar átta helstu iðnríkja heims í Þýskalandi. Bush hefur sagt að deilan, sem snýst um eldflaugavarnarkerfi sem Bandaríkjamenn vilja setja upp í Austur-Evrópu, sé ekkert sem menn ættu að hafa áhyggjur af.

Bush, sem mun hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta á einkafundi, hvatti rússnesk stjórnvöld til þess að senda hershöfðingja sína til Bandaríkjanna svo þeir geti fullvissað sig um ágæti áætlunarinnar, segir á fréttavef BBC.

Á sama tíma eykst þrýstingur á að ríkin nái samkomulagi um loftlagsbreytingar, en Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir enn mögulegt að slíkur samningur náist.

Fyrir utan fundarstaðinn ríkir mikil spenna. Samtök sem berjast gegn alþjóðavæðingu hættu við fyrirhuguð mótmæli sem halda átti í dag eftir að þau voru bönnuð.

Þrátt fyrir það hétu mótmælendurnir því að halda áfram að loka vegum þar til fundarhöldunum lýkur á morgun föstudag.

Nokkrir lögreglumenn særðust í dag í átökum við mótmælendur, en lögreglumennirnir beittu vatnsþrýstidælum á mótmælendur sem köstuðu grjóti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert