Írösk fréttakona var skotin til bana í borginni Mosul í dag. Konan starfaði fyrir fréttastofuna „Voices of Iraq" (VOI) og er hún annar fréttamaður stofunnar sem er myrtur á einni viku.
Sahar Hussein al-Haydari, 45 ára, var myrt á leið sinni til vinnu en ekki er vitað hver myrti hana. Hún lætur eftir sig eiginmann og þrjú börn. Í síðustu viku var fréttamaður VOI, Nezar al-Radi skotinn til bana af óþekktum byssumanni í bænum Missan í suðurausturhluta Íraks. Í síðustu viku var fréttamaður AP sjónvarpsfréttastofunnar (APTN)í Írak skotinn þegar hann fór í mosku í nágrenni heimili síns í Bagdad.
Samkvæmt tölum sem samtökin fréttamenn án landamæra birtu þann 18. maí hafa 176 starfsmenn fjölmiðla verið myrtir í Írak frá innrásinni í mars 2003.