Reid hyggst kynna nýja hryðjuverkalöggjöf

John Reid, innanríkisráðherra Bretlands.
John Reid, innanríkisráðherra Bretlands. Reuters

John Reid, innanríkisráðherra Breta, mun kynna nýja hryðjuverkalöggjöf í dag. Búist er við því að í lögunum verði m.a. kveðið á um það að hægt verði að halda fólki lengur í gæsluvarðhaldi en sem nemur 28 dögum án ákæru.

Tillögurnar, sem munu mögulega einnig greiða leiðina fyrir því að hægt verði að nota upplýsingar sem fást með símhlerunum sem sönnunargögn fyrir dómstólum, gætu orðið hluti af hryðjuverkalöggjöf í framtíðinni. Það er þó talið líklegt að þingheimur eigi eftir að fara ítarlega yfir tillögurnar áður en þær verða samþykktar sem lög.

Mannréttindasamtökin Liberty hafa gagnrýnt þessar hugmyndir, þ.e. að halda fólki í fangelsi án ákæru lengur en 28 daga. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, varð að hverfa frá hugmyndum sínum að framlenga varðhaldið í 90 daga eftir að því var þingheimur mótmælti því harðlega árið 2005.

Bresk dagblöð greindu frá því um helgina að Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, styðji tillögurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert