Mútur og spilling eru að eyðileggja háskóla og menntastofnanir vítt og breitt um heiminn segir í nýrri skýrslu sem menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur sent frá sér.
Fram kemur í skýrslunni að ýmsar menntastofnanir þurfi að búa við margt misjafnt s.s. hagræðingar á bak við tjöldin, fjársvik og mútur vegna staða og stöðuveitinga.
Akademísk fjársvik, s.s. falsaðar háskólagráður, eru algengari í Bandaríkjunum en í þróunarlöndunum segir í skýrslunni.
Ástandið var kanna í 60 löndum og fram kemur að í sumum landanna sé víða pottur brotinn hvað varðar misnotkun á sjóðum skólanna.
UNESCO bendir á að hátt í 80% af því fjármagni sem yfirvöld veita sumum skólum, og er ekki hugsað sem launagreiðslur, geti glatast eða „lekið“ út eins og það er orðað.
Hvað varðar æðri menntun þá snýst vandamálið einna helst um háskóla sem í ljós kemur að eru ekki til, háskólagráður sem hægt er að kaupa í stað þess að vinna sér inn og falskar viðurkenningar eða leyfi sem sumar menntastofnanir hafa náð sér í.
Fram kemur í skýrslunni að fjöldi þeirra háskóla á netinu sem bjóða falskar háskólagráður hafi fjölgað úr 200 árið 2000 í 800 árið 2004.