Danska utanríkisráðuneytið hefur greint frá því að það hafi ástæðu til að ætla að fimm danskir sjómenn sem eru í haldi sjóræningja um borð í flutningaskipinu Danica White séu heilir á húfi. Talsmenn ráðuneytisins vilja þó ekki greina frá því hvaðan þeir hafi þær upplýsingar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
“Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er engin ástæða til annars en að ætla að áhöfnin sé vel á sig komin,” segir Lars Thuesen, talsmaður ráðuneytisins. “Utanríkisráðuneytið tekur ekki þátt í samningaviðræðum við gíslatökumenn en við fylgjumst náið með málinu og dönsk yfirvöld eru í sambandi við aðstandendur mannanna í Danmörku.”
Skipinu var rænt úti fyrir Sómalíu og siglt inn í sómalska landhelgi á laugardag.