Giftingar barna bannaðar en umskurn kvenna leyfð

Konur úr Maasai ættflokknum hlusta á erindi um skaðsemi umskurnar …
Konur úr Maasai ættflokknum hlusta á erindi um skaðsemi umskurnar kvenna í Kilgoris í Trans Mara í Kenýa. Reuters

Þing Afríkuríkisins Sierra Leone hefur sett ný barnaverndarlög þar sem giftingar barnungra stúlkna eru bannaðar. Í hinum nýju lögum er hins vegar ekki kveðið á um að umskurn stúlkna sé ólögleg í landinu líkt og í eldri lögum. Lágmarksgiftingaraldur stúlkna í landinu er nú átján ár en algengt mun vera að stúlkur allt niður í ellefu ára gamlar séu giftar eldri mönnum í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Það vakti athygli að umræða þingsins um umskurn kvenna var lokuð fjölmiðlum og almenningi. Um 90% kvenna í landinu eru umskornar og segir þingmaðurinn Alassan Fofana það hafa verið einróma ákvörðun þingsins að taka umrætt ákvæði út úr lögunum.

Fulltrúi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í landinu segir að þrátt fyrir þetta sé lagasetningin mikilvægur áfangi í réttindamálum barna í landinu.

Umskurn kvenna, sem einnig er kölluð afskræming á kynfærum kvenna (FGM), er algeng í Norður-, Austur- og Vestur-Afríku. Aðgerðin felst í því að misstór hluti kynfæra stúlkubarna er skorinn af og telja þeir sem hlynntir eru slíkum aðgerðum að það dragi úr lauslæti og tryggi tryggð kvenna við eiginmenn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert