Nærri tvö hundruð manns hafa látið lífið í ofbeldisverkum í Írak á fyrstu viku júnímánaðar en lík 32 manna sem teknir höfðu verið af lífi fundust í Bagdad, höfuðborg landsins í gær. Mennirnir höfðu verið pyntaðir og síðan skotnir í höfuðið. Þá létu fjórtán manns lífið og 36 slösuðust í tveimur sprengjutilræðum í landinu í gær. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Fórnarlömbum ofbeldisverka fjölgaði mjög í Írak í síðasta mánuði en þá voru þau 1.949, samkvæmt upplýsingum íraska utanríkisráðuneytisins. Þar af voru 746 teknir af lífi eftir að þeim hafði verið rænt.