Reykingar í danska þinghúsinu sagðar bera vott um tvöfalt siðgæði

Sú ákvörðun forsætisnefndar danska þingsins að leyfa áfram reykingar á einkaskrifstofum í danska þinghúsinu Christiansborg hefur verið harðlega gagnrýnd af krabbameinssamtökum og stéttarfélögum í landinu sem segja hana bera vott um tvöfalt siðgæði. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Krabbameinssamtökin Kræftens Bekæmpelse segja ákvörðun nefndarinnar yfirgengilega og skelfilega en í ákvörðun sinni gekk nefndin gegn samhljóma áliti þverfaglegs vinnuhóps sem fjallaði um málið.

Talsmaður stéttarfélags hreingerningarfólks tekur í sama streng og segir að það gildi greinilega ekki sömu reglur um Jón og séra Jón í þinghúsinu. “Stjórnmálamennirnir hafa nýsett ný reykingalög, á þeim grundvelli að verja þurfi fólk gegn óbeinum reykingum á vinnustöðum. Þeir ættu að byrja á því að líta í eigin barm. Það er skelfilegt að stjórnmálamenn gefi skít í heilsu ákveðinna starfsstétta,” segir formaðurinn Ellen Lykkegaard.

Talsmaður stéttarfélags starfsmanna danskra sveitarfélaga tekur í sama streng. “Geti þingið ákveðið að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum þá er ekki sanngjarnt að stjórnmálamenn fái sjálfir að reykja á Christiansborg og stuðla þannig að óbeinum reykingum annarra starfsstétta,” segir talsmaðurinn Bodil Otto.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert