Stefnir í stóran kosningasigur flokks Sarkozy

Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy AP
Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Flokkur Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta (UMP) nýtur langmests fylgis þegar fjórir dagar eru í fyrri umferð frönsku þingkosninganna. Útlit er fyrir að hann fái mikinn meirihluta á þingi, allt að 460 sæti af 577, samkvæmt skoðanakönnun IPSOS-stofnunarinnar sem birtist í vikuritinu Le Point í gær. Kannanir undanfarnar tvær vikur hafa allar bent til yfirburðasigurs UMP og hefur fylgi flokksins aukist með hverjum deginum nú þegar nær dregur kosningum.

Í könnun IFOP-stofnunarinnar fyrir vikuritið Paris Match um helgina var því spáð að UMP fengi 410-450 þingsæti en flokkurinn er nú með 349. Til samanburðar spáðu reiknimeistarar IFOP Sósíalistaflokknum milli 90 og 130 þingsætum en hann hefur 138. Á grundvelli annarrar fylgismælingar, TNS-Sofres-Unilog fyrir Le Figaro í vikulok, þótti stefna í að UMP fengi 410-430 þingsæti.

Fylgi flokks forsetans hefur aukist jafnt og þétt en hámarki nær það í könnun IPSOS fyrir Le Point, þar sem það mælist 42,5%. Til samanburðar er fylgi Sósíalistaflokksins óbreytt frá fyrri könnun, eða 29%. Í heildina fengju flokkar sem lýst hafa yfir stuðningi við stjórnina 44,5% atkvæða en stjórnarandstöðuflokkar á vinstri vængnum fengju 36%.

Yfirreiknað á kjördæmi þykja ítrekaðar fylgismælingar benda til að Sarkozy verði að ósk sinni. Hann hefur undanfarna daga tekið þátt í kosningabaráttunni og farið fram á að fá þingmeirihluta til að geta hrint stefnumálum sínum fljótt og greiðlega í framkvæmd.

Flokki Bayrou spáð afhroði

Í þingkosningunum fyrir fimm árum hlaut UMP 33,3% atkvæða og flokkurinn er með 349 þingsæti af 577 í neðri deildinni. Sósíalistaflokkurinn hlaut 24,1% atkvæða, með 138 sæti.

Í flestum kjördæmanna 577 eru á annan tug frambjóðenda. Í heildina eru frambjóðendur 7.639 – tæpur helmingur þeirra konur – og fara þeir fram í nafni rúmlega 80 flokka. Nái enginn meirihluta strax í fyrri umferðinni verður kosið í næstu umferð, 17. júní, milli þeirra sem fá a.m.k. 12,5% atkvæða í fyrri umferðinni. Oftast er þá kosið um bara tvo flokka en mörg dæmi eru þó um að þrír komist í seinni umferðina. Í viðkomandi kjördæmi leiðir það þó jafnan til mikils samningamakks um að einn hinna þriggja dragi sig til baka. Útlit er fyrir að tiltölulega fá þingsæti komi í hlut annarra flokka en UMP og sósíalista.

Þannig stefnir í að Kommúnistaflokkurinn, sem stendur fjárhagslega afar illa eftir forsetakosningarnar, tapi meira en helmingi þingsæta sinna, fái um 3,5% atkvæða og milli 6 og 10 þingmenn í stað 21 nú. Fylgi Græningja hefur og minnkað jafnt og þétt undanfarnar vikur og mælist 3,5%. Mesta afhroðið geldur flokkur Francois Bayrou, sem varð þriðji í forsetakjörinu með 18,6% atkvæða. Hann fær frá engum og upp í sex þingmenn verði úrslit kosninganna á sömu lund og skoðanakannanir, sem benda til 9% fylgis.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert