Rannsóknarmaður hjá Evrópuráðinu segir að hann hafi undir höndunum sönnunargögn sem sanni tilvist leynifangelsa í Póllandi og Rúmeníu, og að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi rekið þau til þess að yfirheyra meinta hryðjuverkamenn.
Svissneski þingmaðurinn Dick Marty hefur unnið að rannsókn málsins fyrir hönd Mannréttindanefndar Evrópu, segir á vef BBC.
Í nýrri skýrslu, sem var birt í dag, segir Marty að CIA fangelsin „voru til í Evrópu frá 2003 til 2005, sérstaklega í Póllandi og Rúmeníu.“
Ríkisstjórnir beggja ríkja hafa vísað öllum slíkum ásökunum harðlega á bug.
Marty segir að hann byggis skýrslu sína á viðtölum við fjölmarga heimildarmenn auk þess sem hann hafi notast við eigin aðferðir til þess að rannsaka „óvenjulegu framsöl“ CIA, en það er ferli sem gerði það að verkum að hægt var að flytja meinta hryðjuverkamenn vítt og breitt um heiminn til yfirheyrslna.