Herskáir Palestínumenn fóru í dag frá Gasa-svæðinu yfir landamærin til Ísraels og gerðu árangurslausa tilraun til að ræna ísraelskum hermanni. Íslamska Jihad hreyfingin hefur lýst árásinni á hendur sér, en þetta er í fyrsta sinn sem herskáir Palestínumenn komast yfir landamærin síðan fyrir ári þegar hermanninum Gilad Shalit var rænt og tveir hermenn myrtir.
Í yfirlýsingu frá Abu Ahmed, talsmanni Jihad hreyfingarinnar segir að ætlunin hafi verið að snúa aftur til Gasa með gísl, en ísraelskar herþyrlur hafi komið á vettvang og komið í veg fyrir að aðgerðirnar tækjust. Einn Palestínumannanna, nítján ára að aldri var skotinn til bana, en þrír komust aftur til Gasa.