Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sagðist í dag ekki útiloka forsetaframboð árið 2012. Seinna kjörtímabil Pútíns rennur út á næsta ári, samkvæmt rússneskum lögum má forseti ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, ekkert í rússneskum lögum kemur hins vegar í veg fyrir að forsetar bjóði aftur fram síðar.
„Það er langt þangað til, fræðilega er þetta hægt, stjórnarskráin bannar þetta ekki. En það er mjög langt þangað til, ég hef ekki einu sinni hugleitt þetta”, sagði Pútín á blaðamannafundi í Þýskalandi í dag, aðspurður um hugsanlegt framboð.
Þrátt fyrir að hafa verið gagnrýndur af Vesturlöndum fyrir stjórnarhætti sína, sem þykja alræðislegir, er Pútín geysivinsæll í landi sínu. Raddir hafa verið uppi um að breyta eigi stjórnarskránni svo hann geti setið áfram, en Pútín hefur sjálfur þvertekið fyrir það.