Ísraelskir leiðtogar innan stjórnmála og hersins hafa heitið því að halda áfram árásum á Gasa-svæðið í kjölfar þess að herskáir Palestínumenn gerðu misheppnaða tilraun í gær til að ræna ísraelskum hermanni. Ísraelar svöruðu strax með loftárásum í gær og í dag og sagði Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, að aukin harka væri í vændum.
Yfirvöld hersins vilja mun harðari aðgerðir til að stöðva eldflaugaárásir Palestínumanna án þess þó að gera innrás á Gasa með öllu sem því tilheyrir.
Þá hafa deilur liðsmanna Fatah og Hamas blossað upp að nýju eftir að liðsmanni úr öryggisverði Fatah hreyfingarinnar var ýtt fram af fimmtán hæða byggingu svo hann hrapaði til bana. Manninum hafði verið rænt áður af byssumönnum úr röðum Hamas, og hefur morðið á honum hrundið af stað erjum víða í Gasaborg.