George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, bað stjórnvöld í Líbýu um að veita fimm búlgörskum hjúkrunarfræðingum frelsi en þær hafa verið dæmdar til dauða fyrir að hafa smitað börn af alnæmi.
Á blaðamannafundi í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu í dag sagði Bush að Bandaríkjastjórn styddi frelsun hjúkrunarfræðinganna. „Það á að veita þeim frelsi og þeim leyft að snúa aftur til fjölskyldna sinna," sagði Bush á fundinum.
Hjúkrunarfræðingarnir fimm ásamt palestínskum lækni voru dæmd til dauða fyrir að bera alnæmisveiruna vísvitandi á milli 426 barna á sjúkrahúsi í Líbýu. Sexmenningarnir hafa verið í haldi í Líbýu í átta ár. Þau voru fyrst dæmd til dauða árið 2004 en þá ógilti hæstiréttur Líbýu dóminn í kjölfar áfrýjunar. Allir Líbýumenn sem ákærðir voru í málinu voru sýknaðir árið 2004.