Dæmdir sekir um sæmdarmorð

Maður sem ákærður var fyrir að hafa myrt dóttur sína var í Bretlandi í dag dæmdur sekur. Um svokallað sæmdarmorð var að ræða en stúlkan, sem var tvítug, hafði orðið ástfangin af röngum manni. Föðurbróðir stúlkunnar var einnig dæmdur sekur um morðið.

Stúlkan hvarf af heimili sínu í Mitcham í suðurhluta Lundúna í janúar í fyrra. Lík stúlkunnar fannst þremur mánuðum síðar í tösku sem grafin hafði verið í garði í Birmingham.

Við réttarhöldin yfir mönnunum tveimur voru sýnd myndskilaboð frá stúlkunni þar sem hún sagðist óttast um líf sitt. Upptakan var frá því er stúlkan lá á sjúkrahúsi eftir að faðir hennar hafði reynt að myrða hana, að því er fram kemur á Sky sjónvarpsstöðinni.

Dómur verður kveðinn upp yfir mönnunum tveimur, Mahmod Mahmod og Ari Mahmod, fljótlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert