Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði í dag að George W. Bush Bandaríkjaforseti geti ekki fyrirskipað Bandaríkjaher að handtaka og hafa í haldi um óákveðinn tíma ríkisborgara frá Katar sem er grunaður um að starfa fyrir al-Qaeda hryðjuverkasamtökin. Maðurinn er sá eini sem er í haldi í Bandaríkjunum sem „óvina stríðsmaður“.
Úrskurðurinn þykir vera mikið áfall fyrir stefnu Bush í stríðinu gegn hryðjuverkum sem var tekin upp í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin þann 11. september árið 2001. Þrír dómarar dæmdu í málinu og komust tveir þeirra að þeirri niðurstöðu að Bandaríkjastjórn hafi engar sannanir undir höndum sem geti réttlætt það að Ali Saleh Kahlah al-Marri sé meðhöndlaður sem „óvina stríðsmaður“. Dómstóllinn fyrirskipaði að honum skyldi sleppt úr haldi hersins.
Al-Marri hefur verið í haldi án ákæru í herstöð í Charleston í Suður-Karólínu í næstum fjögur ár.
Dómstóllinn sendi málið aftur til ríkisdómara í Suður-Karólínu og var honum gert að beina þeim tilmælum til varnarmálaráðherra Bandaríkjanna að sleppa beri al-Marri úr varðhaldi.
Ríkisstjórnin getur flutt al-Marri til borgaralegra yfirvalda þar sem hann getur átt von á ákæru sem leitt gæti til þess að hann yrði fluttur úr landi, honum haldið sem vitni eða að hann yrði áfram í haldi samkvæmt föðurlandslögunum, sem er sérstök hryðjuverkalöggjöf sem var samþykkt á Bandaríkjaþingi í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin.