Jaroslaw Kaczyński, forsætisráðherra Póllands, sagði í dag að Pólverjar væru skrefinu nær því að hýsa bandarískar eldflaugavarnir eftir heimsókn George W. Bush Bandaríkjaforseta í síðustu viku. Bush fundaði með Lech Kaczyński, forseta landsins og tvíburabróður forsætisráðherrans, um að koma upp stöð með tíu varnareldflaugum í landinu.
Kaczyński sagði þetta í útvarpsviðtali í ríkisútvarpi landsins og sagði að rætt hefði verið um samkomulag sem hann vonaði að yrði að endanlegri niðurstöðu. Forsætisráðherrann ítrekaði þó að samkomulagið yrði að auka öryggi landsins, bæði í hernaðarlegum og pólitískum skilningi.
Þá gagnrýndi forsætisráðherrann Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og gerði lítið úr hugmyndum hans um sameiginlegar eldflaugavarnir í Aserbaídjan.
„Fyrir skömmu sagði Pútín eldflaugavarnirnar hættulegar og hótaði kjarnorkusprengjum. Staðreyndin er sú að það er ekkert nýtt að hann skuli leika einhvers kona leik.”