Sjö slösuðust þegar rafmagnsleiðsla féll niður á brautarpall Aðalbrautarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn í kvöld. Slysið olli töfum á umferð til Kastrup flugvallar og Svíþjóðar.
Rafmagnsleiðsla féll á brautarpallinn um klukkan hálf átta í kvöld, á sama tíma og lest keyrði að. Leiðslan reif með sér eina festingu sem lenti á fleiri farþegum, sem sluppu þó með lítilháttar meiðsl, segir á fréttavef Politiken.
Spennan í leiðslunni er um 25.000 volt og fengu nokkrir af þeim slösuðu straum af henni. Flestir hinna slösuðu voru sænskir skólakrakkar á aldrinum 13-14 ára á leið til Malmö. Tveir kennarar og fjögur börn urðu fyrir leiðslunni.
Lestaumferð var í kjölfarið vísað frá Aðalbrautarstöðinni í um tvær klukkustundir.