Aldargamalt skutulsbrot fannst í hval sem veiddist við Alaska

Oddur skutulsins sem fannst í hvalnum.
Oddur skutulsins sem fannst í hvalnum. AP

Í fimmtíu tonna sléttbak sem veiddist við Alaska í síðasta mánuði fannst brot úr skutli sem notað hefur verið til að reyna að veiða hann fyrir rúmri öld. Bendir þetta til þess að hvalurinn hafi verið 115-130 ára gamall er hann veiddist. Segja sérfræðingar að ekki hafi áður fengist svo nákvæmar vísbendingar um háan aldur hvals.

Það getur verið erfiðleikum bundið að reikna út hve gamlir hvalir eru, en venjulega er miðað við ammínósýrur í augasteinunum. Fátítt er að finnist hvalur sem er yfir hundrað ára, en þeir elstu sem vitað er um voru hátt í 200 ára.

Skutulsbrotið sem fannst í hvalnum sat á milli hálsliða hans og herðablaðs. Talið er að skutullinn hafi verið búinn til í New Bedford í Massachusetts, þar sem var mikil hvalstöð fyrir rúmri öld. Skutlinum hefur væntanlega verið skotið í hvalinn úr axlarbyssu í kringum árið 1890.

Brotið fannst undir fitulagi hans þegar verið var að vinna hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert