Einn af æðstu dómurum Bretlands var sýknaður í dag af ásökunum um að hafa flett sig klæðum fyrir framan konu í þéttsetinni farþegalest, en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að staðfesta með augljósum hætti að dómarinn væri sá seki.
Stephen Richards, sem er 56 ára, var sakaður um að sýna ungri konu kynfærin á sér við tvö aðskilin atvik er hann ferðaðist í lest frá heimilli sínu í Wimbledon, í suðvesturhluta London, áleiðis til miðborgarinnar í október í fyrra.
„Allan tíma hef ég lagt traust mitt á hið lagalega ferli og ég er hæstánægður yfir því að það hefur orðið til þess að hreinsa nafn mitt,“ sagði hann við blaðamenn eftir að dómurinn lá fyrir.
Konan sagði að maðurinn hefði verið í frakka og að hann hafi verið „frambærilegur“ og „góðlegur“ í útliti. Hann stóð nálægt henni í þéttsetinni lest þegar hún tók eftir því að maðurinn hafði rennt niður buxnaklaufinni þannig að kynfærin sáust greinilega.
Hún hélt í fyrstu að þetta hefði verið slys og hélt áfram að lesa blaðið sitt. Viku síðar sýndi maðurinn henni kynfærina á sér á nýjan leik, að því er konan tjáði lögreglu.
Konan segist hafa tvisvar sinnum veitt manninum eftirför og tekið af honum myndir með farsímanum sínum, en hún lét lögregluna hafa myndirnar þegar dómarinn var handtekinn í janúar sl.
Richards, sem er kvæntur og þriggja barna faðir, segir að hann sé fórnarlamb mistaka. Honum var hinsvegar gert að standa í sakaröð og þar benti konan á hann.