Algert hrun blasir við í Afríkuríkinu Zimbabve og gera má ráð fyrir að neyðarlögum verði lýst þar yfir innan sex mánaða, samkvæmt upplýsingum sem sendar hafa verið til hjálparstofnana í landinu. Í leiðbeiningum til hjálparstarfsmanna kemur fram að geysileg verðbólga muni sennilega valda því að ekki verði lengur hægt að reka verslanir og þjónustufyrirtæki í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Leiðbeiningarnar voru unnar fyrir hjálparstofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna og fjalla m.a. um hjálparstarf á svæðum þar sem skilvirk stjórnsýsla er ekki til staðar og algert hrun stjórnkerfa ríkisins blasir við.
Verðbólga í Zimbabve er nú 3.714% og er verðbólga hvergi hærri í heiminum. Þá segir í skýrslu, sem fylgir leiðbeiningunum, að gildistími samninga í landinu sé nú oft ekki nema einn sólarhringur eða jafnvel einn klukkutími, þar sem samningsaðilar geti ekki séð fyrir þróun mála umfram þann tíma. Þá segir að mörg fyrirtæki í landinu greiði nú starfsmönnum sínum laun í matvöru fremur en peningum og að gera megi ráð fyrir algeru hruni efnahagskerfis landsins fyrir lok þessa árs.
Í skýrslunni kemur einnig fram að rafmagns- og vatnsbirgir landsins séu að ganga til þurrðar og að þeir sem hafi lifað og starfað í skjóli Roberts Mugabe, forseta landsins, og stuðningsmanna hans séu nú einnig farnir að finna fyrir skortinum.
Sjálfur hefur Mugabe vísað því á bug að stjórn hans beri nokkra ábyrgð á kreppunni í landinu sem hann segir að rekja megi til undirróðurs og ráðabruggs Vesturlanda, sem vilji hefna íbúum landsins fyrir að lönd hvítra bænda hafi verið gerð upptæk.