Bandaríkjamenn sögðu við Rússa í dag að þeir láta það vera að hóta að gera árás á Eystrasaltsríkin Eistlandi, Lettlandi og Litháen, sem eru fyrrum Sovétlýðveldi, og beita ríkin refsiaðgerðum. Bandaríkin sögðu hinsvegar að Rússar ættu að ræða málin á „siðmenntaðan“ máta.
„Það eru djúp og erfið mál er varða tengsl Rússa við Eystrasaltsríkin og sum þeirra eiga rætur að rekja til ólíkra viðhorfa á sögulega atburði,“ sagði Daniel Fried, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.
„En þessi ágreiningsmál ættu að vera rædd á heiðarlegan og siðmenntaðan máta. Hótanir, árásir og refsiaðgerðir ættu ekki að koma til greina,“ sagði hann á ráðstefnu í Washington sem var haldin af tilefni þess að 85 ár séu liðin frá því að Bandaríkin og Eystrasaltsríkin tóku upp stjórnmálasamband. Allir þrír utanríkisráðherrar landanna voru viðstaddir ráðstefnuna.
Í síðasta mánuði sökuðu Eistar Rússa um að standa á bak við árásir sem hafa verið gerðar á tölvukerfi í landinu, og að það væri liður í herferð óopinberra refsiaðgerða Rússa gagnvart Eistum.
Þrátt fyrir að Rússar hafi neitað því að þeir hafi beitt Eista refsiaðgerðum í tengslum við deilur um sovéskt stríðsminnismerki, þá dró verulega úr viðskiptum milli þjóðanna og fundu Eistar vel fyrir því.
Rússnesk stjórnvöld eru ekki sátt við það að Eistland, Lettland og Litháen gengu í NATO árið 2004 og hafa samskipti ríkjanna verið stirð frá þeim tíma.