Dómari í Ontario í Kanada hefur bannað hinum 24 ára Steven Cranley að eiga kærustu næstu þrjú árin en Cramnley játaði í síðustu viku að hafa ráðist á fyrrum kærustu sína eftir að sambandi þeirra lauk. Barði hann stúlkuna og sparkaði í hana og er lögregla kom á staðinn stakk hann sjálfan sig með hnífi. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Læknar segja Cranley eiga við persónuleikaröskun að stríða og að hann eigi erfitt með að taka höfnun. Þá segja þeir miklar líkur á því að hann brjóti af sér á ný verði hann aftur fyrir höfnun í ástarmálum.
Cranley hefur þegar setið 150 daga í gæsluvarðhaldi vegna málsins en honum var sleppt er dómur hafði verið kveðinn upp yfir honum.