Foreldrar afburðagreindra barna hafa meiri áhyggjur af börnum sínum en foreldrar annarra barna, samkvæmt niðurstöðu nýrrar írskrar rannsóknar. Þá finna þeir meira fyrir streitu og álagi og eru sjálfmeðvitaðri og viðkvæmari fyrir gagnrýni á uppeldisaðferðir sínar en foreldrar almennt. Afburðagreind börn eru hins vegar ánægðari með lífið en önnur börn. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Samkvæmt könnuninni sem unnin var af írsku samtökunum Psychological Society upplifa foreldrar afburðagreindra barna hlutskipti sitt því fremur á neikvæðan en jákvæðan hátt.
"Menntakerfið er því miður ekki fyllilega meðvitað um þær sérstöku aðstæður sem skapast í kring um afburðagáfuð börn. Það gæti gert mun meira til að aðstoða afburðagáfuð börn við að þróa og nýta hæfileikaleika sína," segir dr. Nicky O'Leary, sem stóð að rannsókninni. Þá segir hún að takmarkanir skólakerfisins valdi því að foreldrar barna sem á einhvern hátt skera sig úr séu undir hlutfallslega meira álagi en aðrir.
Könnunin fór fram með þeim hætti að tekin voru viðtöl við 43 afburðagáfuð börn og mæður þeirra og þau borin saman við svör annarra barna og mæðra þeirra. Könnunin var gert í kjölfar þess að fyrri rannsókn samtakanna sýndi að foreldrar afburðagáfaðra barna hafa það á tilfinningunni að samfélagið upplifi þá sem of kröfuharða og metnaðargjarna fyrir hönd barna sinna.