Kurt Waldheim látinn

Kurt Waldheim
Kurt Waldheim AP

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kurt Josef Waldheim, er látinn. Waldheim, sem var 88 ára að aldri, lést úr hjartabilun á sjúkrahúsi í Vín, höfuðborg Austurríkis.

Waldheim var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1972-1981 og forseti Austurríkis 1986-1992.

Í æviminningum sínum, sem komu út árið 1996, segir Waldheim að það hafi verið mistök að gera ekki ítarlega grein fyrir fortíð sinni í her nasista á Balkanskaga í síðari heimsstyrjöldinni. Waldheim telur hins vegar að framganga hans hafi á engan hátt verið gagnrýniverð.

Endurminningar hans sem nefnast „Svarið". Einn kafli bókarinnar er lagður undir þátttöku Waldheims í síðari heimsstyrjöldinni en vegna grunsemda um þátttöku í stríðsglæpum var Waldheim rúinn vinum og trausti síðustu ár sín á forsetastóli.

„Ég geri mér nú ljóst að nákvæm skrá yfir helstu æviatriði þ.á m. um daga mína í hernum hefði ef til vill getað unnið gegn mér til skemmri tíma litið en hefði getað hlíft mér við margvíslegum vandræðum síðar," segir Waldheim í þessum kafla bókarinnar.

Vegna ásakana um að hann hefði komið nærri stríðsglæpum sem nasistar gerðust sekir um á Balkanskaga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var hann settur á lista yfir grunaða illvirkja í Bandaríkjunum og gat af þeim sökum ekki sótt þau heim. Síðustu árin í embætti voru Waldheim mjög erfið af þessum sökum og var hann þráfaldlega vændur um að hafa reynt að leyna þessum kafla í lífi sínu. Var hann nánast einangraður af þessum sökum og samskipti forsetaembættisins við erlend ríki lítil sem engin.

„Líkt og svo oft áður þá var sannleikurinn sá að ég hafði ekkert að fela. Það gilti um hermannsferil minn og þann tíma sem ég dvaldist á Balkanaskaga," segir Waldheim í endurminningum sínum.

Segir hann að andstæðingar sínir í Austurríki, Jafnaðarmannaflokkurinn og Heimsráð gyðinga í Bandaríkjunum hafi sameinast í herferð gegn sér eftir tilheyrandi leynimakk í þá veru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert