Tugir milljóna hafa greitt atkvæði í kosningu um ný undur veraldar

Stytturnar á Páskaeyju í Kyrrahafi eru meðal þeirra 20 mannvirkja sem netnotendur geta kosið um í vali á „sjö nýjum undrum veraldar,“ sem nú stendur yfir á vefnum New7Wonders.com. Skipuleggjendur valsins fengu þekkta arkitekta og fleiri málsmetandi til að velja á listann, og eru þar einnig Akrópólís í Aþenu og óperuhúsið í Sydney, svo eitthvað sé nefnt.

Forsprakki kosningarnnar er svissneski kvikmyndagerðarmaðurinn, safnvörðurinn og ferðalangurinn Bernard Weber. Er markmiðið að vekja athygli á sameiginlegum menningararfi jarðarbúa. Segjast skipuleggjendur kosningarinnar vilja fá „venjulegt fólk“ til að fylgja fordæmi menntamanna við Miðjarðarhaf og í Miðausturlöndum sem völdu sjö undur veraldar um 200 f.Kr. Það eina sem enn stendur af þeim er Giza-pýramídinn í Egyptalandi. „Kunni maður að meta menningu annarra er mun erfiðara en ella að fara í stríð við þá,“ segir talsmaður verkefnisins „New7Wonders,“ Tia Viering. Segir hún að atkvæði berist hvaðanæva úr heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert