Gates kominn til Bagdad til að þrýsta á Maliki

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kom í óvænta heimsókn til Bagdad í Írak í dag til að hvetja Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, til að leggja harðar að sér við að ná fram sáttum í landinu. Óttast er að gerðar verði fleiri sprengjuárásir í moskur í landinu, og að það verði sem eldur á olíu trúarátakanna í landinu.

„Í fullri hreinskilni sagt þá höfum við orðið fyrir vonbrigðum með þann árangur sem hefur náðst hingað til og við vonum að þessi síðasta sprengjuárás al-Qaeda muni hvorki trufla né tefja ferlið,“ sagði Gates við blaðamenn er hann flaug til Bagdad.

Heimsókn hans kemur í kjölfar heimsóknar John Negroponte, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, og flotaforingjans William Fallons, sem er yfirmaður Bandaríkjahers í Miðausturlöndum. Þeir vöruðu Maliki einnig við því að hann verði að ná árangri í því að ná fram sáttum milli deiluaðila í landinu.

Sprengjuárásin sem var gerð á gullnu moskuna í Samarra í þessari viku þykir vera til marks um mikilvægi orða þeirra, en þetta er í annað sinn sem ráðist er á moskuna. Óttast er að í kjölfarið muni hefndarárásir fara sem flóðbylgja yfir landið, þar sem súnnítar hefni sín á sjítum og öfugt.

Þá þrýstir Bandaríkjaþing mjög á Bandaríkjastjórn, en demókratar, sem eru í meirihluta á þingi, þrýsta á að bandarískir hermenn verði kvaddir heim frá Írak. Talið er að þeir séu um 147.000 talsins.

Gates sagði við blaðamenn í dag að hann bæri fullt trausts til hershöfðingjans David Petraeus, sem er æðsti yfirmaður Bandaríkjahers í Írak. Petraeus er gert að skila skýrslu í september þar sem fjallað verður um það hvort aðgerðir bardagasveita Bandaríkjahers hafi orðið þess valdandi að dregið hafi úr átökum í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert