Áhyggjufullir foreldrar í Danmörku grípa í vaxandi mæli til fíkniefnaprófa, sem hægt er að framkvæma heima, til þess að mæla hvort ólögleg efni séu í þvagi barna þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
Lyfjafyrirtækið Med24.dk mældi fjórfalda aukninga milli ára á sölu fíkniefnaprófa til heimabrúks. Fyrirtækið sendir þar að auki um 50 próf á viku í heimahús.
Foreldarnir vilja athuga hvort börn þeirra segja satt um neysluna á fíkniefnum og kaupa aðallega próf fyrir hass, kókaín og amfetamín.
Fíkniefnaprófin hafa verið á markaði í Skandínavíu frá byrjun tíunda áratugarins. Á hverjum degi fær dreifingaraðili þess í Danmörku, Ferle Produkter, milli fimm og tíu fyrirspurnir frá foreldrum þar í landi. Í Noregi og Svíþjóð gerist það hins vegar aðeins á hálfs árs fresti. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins segir það koma til vegna ráðaleysis foreldra og að viðeigandi stofnanir í Danmörku vísi þeim beint á fyrirtækið.